• Print

Breiðfirðingakórinn

Það er mikið líf í starfi Breiðfirðingakórsins þetta árið líkt og fyrri ár. Við höfum fengið til liðs við okkur nýja félaga sem við erum ákaflega stolt af og bjóðum við þau hjartanlega velkomin.

Helgina 19. og 20. október var haldin afmælishátíð Landsambands blandaðra kóra í Hörpunni. Við tókum þátt í þessari hátíð ásamt 25 öðrum kórum eða 900 söngfuglum og má segja að þessi fjöldi sýni hvað það er skemmtilegt að vera í kór.

Eins og alltaf gerum við okkur glaðan dag inn á milli æfinga og nú er komið að okkar árlega bjórkvöldi sem verður haldið 16. nóvember í Breiðfirðingabúð. Við ætlum að syngja, dansa og skemmta okkur fram eftir kvöldi og hvet ég sem flesta til að mæta og auðvitað taka með sér gesti. Húsið opnar kl. 20:00 en formleg dagskrá hefst kl. 21:00.

Jólalögin eru farin að heyrast frá Breiðfirðingabúð enda ekki seinna vænna að byrja að æfa fyrir okkar margrómuðu jólatónleika sem verða haldnir í Fella- og Hólakirkju 15. desember kl. 20:00. Þar mun kórinn syngja bæði gömul og ný jólalög og koma þannig tónleikagestum í sannkallað hátíðarskap. Líkt og undanfarin ár munum við syngja á aðventudegi fjölskyldunnar 1. desember enda má segja að sá dagur sé orðin hluti af undirbúningi jólanna hjá mörgum kórfélaganum.

Hlakka til að sjá ykkur sem flest á jólatónleikunum og öðrum viðburðum kórsins.

Góðar kveðjur til ykkar allra.

Halldóra K. Guðjónsdóttir.