Fréttabréf BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS 3. tbl. apríl. 2013 19. árg. er komið út.
Fréttabréf
BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS
Faxafen 14. 108 Reykjavík S: 581-4511
3. tbl. apríl. 2013 19. árgangur
Ábyrgðarmaður Snæbjörn Kristjánsson
Kæru félagsmenn
Senn er veturinn á enda sem hefur verið mjög góður hvað félagsstarfið varðar. Þá vil ég þakka það mikla traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig aftur formann. Breyting varð á stjórn félagsins, þar sem Sigríður Karvelsdóttir gaf ekki kost á sér, enda búin að starfa lengi í stjórninni. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka henni fyrir vel unnin störf. Stjórn félagsins er nú skipuð eftirtöldum félagsmönnum:
Sæunn G. Thorarensen, varaformaður, Hörður Rúnar Einarsson, gjaldkeri, Júlíana Ósk Guðmundsdóttir, varagjaldkeri, Alvilda Þóra Elísdóttir, ritari, Finnbjörn Gíslason, vararitari og Kristjón Sigurðsson, meðstjórnandi. Í varastjórn eru, Hulda Karlsdóttir, Brynja Jónsdóttir og Sigurður Eyjólfsson. Prjónakaffið hefur gengið mjög vel undir styrkri stjórn Erlu og Sæunnar. Ýmsar kynningar og sýningar hafa verið á prjónakvöldunum. Félagsvistinni er ekki lokið og er eftir að spila tvisvar sinnum 14. og 21. apríl. Aðsóknin er alltaf að aukast. Spilað hefur verið alla sunnudaga frá áramótum. Mikil ánægja hefur verið með kaffið og meðlætið á spiladögunum, en það er að mestu heimatilbúið. Ég vil þakka fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta.
Bridge-deildin hefur gengið vel og hefur verið spilað öll sunnudagskvöld. Góð mæting var á páskabingóið og fóru margir heim með páskaegg. Spurningakeppni átthagafélaganna er haldin í Breiðfirðingabúð, hófst 28. febrúar og lýkur á síðasta vetrardag. Það eru 16 átthagafélög sem standa að
keppninni. Höfundur spurninga er Gauti Eiríksson, grunnskólakennari. Sjónvarpsstöðin ÍNN hefur tekið upp alla keppnina og er hún sýnd reglulega, ásamt kynningu frá því félagi sem fellur úr keppni í hverjum þætti. Okkar keppnislið hefur staðið sig frábærlega og er komið í fjögurra liða úrslit.
Liðið okkar er þannig skipað: Karl Hákon Karlsson, liðstjóri, Páll Guðmundsson, Elís Svavarsson, Grétar Guðmundur Sæmundsson og Urður María Sigurðardóttir.
Breiðfirðingakórinn heldur sína árlegu vortónleika laugardaginn 13. apríl í Langholtskirkju, þar sem kórinn mun flytja ykkur létta og fjölbreytta söngdagskrá með lögum eftir ýmsa höfunda m.a. Valgeir Guðjónsson, Sigvalda Kaldalóns og Sigfús Halldórsson að ógleymdum Jóni frá Ljárskógum, sjá nánar á blaðsíðu 4.
Sunnudaginn 5. maí er Dagur aldraðra sem er jafnt fyrir unga sem aldna, hann verður með svipuðu sniði og áður.
Gróðursetningaferð í reit félagsins í Heiðmörk verður farin 4. júní.
Sumarferð félagsins verður farin að Logalandi í Borgarfirði 21. til 23. júní og verður dagskráin með svipuðu sniði og undanfarin ár.
Við vonumst til að sjá sem flesta við þessi tækifæri.
Kær kveðja
Snæbjörn Kristjánsson, formaður.
Bridge verður spilað eftirtalda daga í Breiðfirðingabúð kl. 19.oo
14. apríl Tvímenningur
21. apríl Tvímenningur keppni 1 af 3
28. apríl Tvímenningur keppni 2 af 3
05. maí Tvímenningur keppni 3 af 3 og aðalfundur
Aðgangseyrir kr. 700.-
Félagsvist verður spiluð eftirtalda daga í Breiðfirðingabúð:
14. apríl Keppni 3 af 4
21. apríl Keppni 4 af 4
Veglegar kaffiveitingar að spilum loknum. Aðgangseyrir kr. 1000.-
Spurningakeppni átthagafélagana
4 liða úrslitin verða 11. apríl og þá keppa:
Skaftfellingafélagið - Breiðfirðingafélagið
Norðfirðingafélagið - Dýrfirðingafélagið
Úrslitakeppnin fer fram síðasta vetrardag, 24. apríl
Keppnin verður haldin í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 . Hægt er að taka lyftu ef gengið er inn um norðurinnganginn. Húsið opnar kl. 19:30 og keppnin hefst kl. 20:00.
Aðgangseyrir kr. 500,-
Eftir lokakeppnina, þann 24. apríl, verður haldinn dansleikur í Breiðfirðingabúð og mun Marinó Björnsson leika fyrir dansi.
Vorfagnaður Breiðfirðingafélagsins
Vorfagnaður Breiðfirðingafélagsins verður í Breiðfirðingabúð, laugardaginn 13. apríl. Hljómsveitin Klassik leikur fyrir dansi.
Dansað verður frá 22:00-02:00. Húsið opnar kl. 21:30. Aðgangseyrir kr. 1.500,-
Allir velkomnir
Helstu atriði dagskrár eftir áramót:
13. apríl. Vorfagnaður frá kl. 22:00 til 02:00
5. maí. Dagur aldraðra, kl 14:30
4. júní. Gróðursetningarferð í Heiðmörk.
21. til 23. júní. Sumarferð félagsins að Logalandi í Borgarfirði.
Skráning nýrra félaga
Ef þið þekkið einhvern sem vill ganga í Breiðfirðingafélagið, þá er hægt að senda inngöngubeiðni á netinu www.bf.is “Hafa samband”
VORIÐ KEMUR
Vortónleikar Breiðfirðingakórsins
í Langholtskirkju, laugardaginn 13. apríl kl. 16:00
Með sól í hjarta hefur Breiðfirðingakórinn upp raust sína þetta vorið og flytur ykkur létta og fjölbreytta söngdagskrá með lögum eftir ýmsa höfunda m.a. Valgeir Guðjónsson, Sigvalda Kaldalóns og Sigfús Halldórsson að ógleymdum Jóni frá Ljárskógum.
Einsöngvari með kórnum er Marta Guðrún Halldórsdóttir Mezzosópran, stjórnandi er Judith Þorbergsson og undirleikari Þóra Fríða Sæmundsdóttir.
Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur, eru svo sannarlega orð að sönnu. Það er ekki bara gróðurinn og dýralífið sem lifnar við með hækkandi sól heldur einnig mannslundin sem finnur hjá sér gleði og fögnuð yfir því sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er yndislegt að hlusta á fuglasönginn úti í náttúrunni en það er ekki síðra að hlusta á fallegan kórsöng og því hvetjum við alla til að mæta á tónleikana og fagna vorkomunni með okkur.
Kaffi, gos og meðlæti verður í boði kórsins í hléi. Verð aðgöngumiða er kr. 2.000 við innganginn en kr. 1.500 í forsölu hjá kórfélögum, frítt er fyrir 12 ára og yngri.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Breiðfirðingakórinn.