LÖG BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS Í REYKJAVÍK

Samþykktir Breiðfirðingafélagsins

 

I. kafli
Heiti félagsins og tilgangur

1. gr.
Félagið heitir Breiðfirðingafélagið, skammstafað B.F., og er heimili þess og varnarþing í Reykjavík.

2. gr.
Félagið er átthagafélag héraðanna við Breiðafjörð, hinna fornu Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu, Austur Barðastrandasýslu og Vestur Barðastrandasýslu.
Tilgangur félagsins er :
a. Að efla og viðhalda kynningu milli brottfluttra og heimamanna í héruðunum við Breiðafjörð.
b. Að varðveita frá gleymsku sögulegar minjar frá héruðunum við Breiðafjörð, svo sem
staðarlýsingar, örnefni og heimildir um lifnaðarhætti, menningu, atvinnulíf, fólk og atburði.
c. Að styðja eftir megni hvaðeina sem horfir til menningar og framfara í héruðunum við Breiðafjörð.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:
a. Að starfrækja samkomusal (Breiðfirðingabúð) fyrir félagsstarf og standa að viðburðum og samkomum sem lúta að tilgangi félagsins.
b. Að gefa út tímarit og fréttabréf og að halda úti heimasíðu.
c. Að styðja við menningu og framfarir í orði og verki.

4. gr.
Félagið skal ekki hafa með höndum atvinnustarfsemi í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Því er þó heimilt að afla tekna með tilfallandi sölu á aðstöðu til funda- eða samkomuhalds í húsakynnum sínum, enda verði hagnaði þar af einvörðungu varið í samræmi við tilgang félagsins.
Félaginu er heimilt að taka við gjöfum og fjárframlögum frá félagsmönnum og öðrum, enda verði gjöfum og framlögum einvörðungu varið í samræmi við tilgang félagsins.
Tekjuafgangur á starfsári skal færður á eigið fé til ráðstöfunar á síðari starfsárum í samræmi við tilgang félagsins. Eigið fé skal ávaxtað með hagkvæmum og tryggum hætti.
Innan félagsins geta starfað deildir með sérgreindan fjárhag og stjórn í eigin málum. Slíkar deildir eru nú Breiðfirðingakórinn og Bridgedeild Breiðfirðingafélagsins.

II. kafli

Félagsaðild, starfsár og félagsgjöld

5. gr.
Félagi getur hver sá orðið sem ættir á að rekja til héraðanna við Breiðafjörð, búsettur er eða hefur verið þar, svo og maki þess, þ.m.t. sambýlismaki. Jafnframt getur orðið félagi hver sá sem starfa vill innan félagsins í samræmi við tilgang þess.

6. gr.
Umsókn um félagsaðild skal sett fram á því formi sem félagsstjórn ákveður. Umsókn um félagsaðild skal borin upp á aðalfundi félagsins til samþykktar eða synjunar. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og skal beint til félagsstjórnar.

7. gr.

Félagar bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

8. gr.
Starfsár félagsins er almanaksárið.

9. gr.
Félagar skulu greiða árgjald til félagsins. Aðalfundur ákveður fjárhæð árgjalds fyrir yfirstandandi ár hverju sinni. Árgjald hvers félaga skal innheimt í einu lagi.
Félagsstjórn skal halda félagaskrá. Ef félagi er í vanskilum með árgjald tveggja ára er stjórn heimilt að fella hann af félagaskrá.
Félaga er heimilt að gerast ævifélagi gegn eingreiðslu félagsgjalds (ævigjalds) sem nemur
tvítugföldu árgjaldi yfirstandandi árs. Eftirleiðis greiðir ævifélagi ekki árgjald.

III. kafli
Félagsfundir

10. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert og skal félagsstjórn til hans boða með tilkynningu á heimasíðu félagsins með minnst 10 daga fyrirvara. Í fundarboði skal dagskrá fundarins tilgreind. Hafi komið fram tillaga til breytingar á samþykktum þessum, um sölu eða annað framsal á fasteign félagsins eða til slita á félaginu skal efnis tillögu getið í fundarboði. Slík tillaga verður því aðeins tekin til efnislegrar meðferðar á aðalfundi að hennar hafi réttilega verið getið í fundarboði.

11. gr.
Aðalfundur er lögmætur ef réttlega er til hans boðað. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem við upphaf fundar eru skráðir félagar. Atkvæðisréttur er hvorki framseljanlegur né verður hann öðrum falinn með umboði.
Til breytinga á samþykktum þessum þarf samþykki 3/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Til ákvörðunar um sölu eða annað framsal á fasteign félagsins þarf samþykki 3/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Til ákvörðunar um slit félagsins þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Til annarra ákvarðana aðalfundar nægir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða.

12. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðast liðnu starfsári.
Skýrslur deilda félagsins sem hafa sérgreindan fjárhag og stjórn í eigin málum.
Ársreikningur síðast liðins árs lagður fram og borinn upp til samþykktar.
Breytingar á samþykktum félagsins, ef við á, þ.m.t. um að stofna eða leggja niður deild með sérgreindan fjárhag og stjórn í eigin málum.
Ákvörðun um sölu á fasteign félagsins, ef við á.
Afgreiðsla tillögu um félagsslit, ef við á. Tillaga um félagsslit verður því aðeins tekin til afgreiðslu að hún innihaldi tillögu að ráðstöfun eigna félagsins í samræmi við 19. gr.
Ákvörðun félagsgjalds yfirstandandi starfsárs.
Inntaka nýrra félagsmanna.
Kosning stjórnar og skoðunarmanna ársreikninga.
Önnur mál samkvæmt boðaðri dagskrá eða ákvörðun fundarins.

13. gr.
Ef tillaga um félagsslit hlýtur á aðalfundi atkvæði meirihluta þeirra sem atkvæði greiða, en þó ekki þann aukna meirihluta (4/5) sem þarf til ákvörðunar um félagsslit, skal fundurinn ákveða að boða til framhaldsaðalfundar innan 30 daga, en þó ekki fyrr en að 15 dögum liðnum, þar sem tillagan verður tekin fyrir að nýju. Félagsstjórn skal á heimasíðu félagsins birta tilkynningu um framhaldsaðalfundinn og tillögu þá um slit sem fundinum er ætlað að taka til afgreiðslu. Félagsstjórn er jafnframt heimilt að birta tilkynningu um fundinn með öðrum hætti. Hljóti tillaga um slit atkvæði meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna á framhaldsaðalfundi telst hún vera samþykkt.

14. gr.
Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórn telur þess þörf. Einnig skal almennur félagsfundur haldinn berist stjórn skrifleg krafa þar um frá a.m.k. 25 félagsmönnum. Um fundarboðun, lögmæti fundar og atkvæðisrétt gilda sömu reglur og um aðalfund, sbr. 1. mgr. 11. gr. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður ákvörðunum á almennum félagsfundum. Undir almennan félagsfund verða ekki borin þau mál sem falin eru aðalfundi, skv. 12. gr.

IV. kafli

Stjórn og skoðunarmenn ársreikninga

15. gr.
Stjórn félagsins fer með framkvæmdavald milli aðalfunda og kemur fram fyrir hönd félagsins.
Stjórnarmenn verða að vera fjár síns ráðandi.
Stjórn skal leita heimildar almenns félagsfundar fyrir meiriháttar fjárskuldbindingum og/eða
veðsetningu fasteignar félagsins.
Stjórn félagsins skipar félagsmenn til starfa í nefndum eða starfshópum um einstaka málefni eða atburði. Nefndir og starfshópar starfa í umboði félagsstjórnar og eru henni til ráðuneytis um málaflokka sína. Húsnefnd annast allan rekstur húseignar félagsins. Húsnefnd skal skipuð þremur mönnum, einum úr stjórn félagsins, öðrum úr hópi kórfélaga og þeim þriðja úr hópi fólks úr annarri deild félagsins. Jafnframt skal skipaður einn varamaður í húsnefnd.

16. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og fjórum til vara, sem á aðalfundi eru kjörnir til tveggja ára í senn. Annað hvert ár skulu kjörnir þrír aðalmenn, þar af formaður fyrst sérstaklega, og tveir varamenn. Hitt hvert árið skulu kjörnir fjórir aðalmenn og tveir varamenn.
Stjórnarkjör skal vera skriflegt.
Kjörgengir til setu í stjórn eru allir félagar að því tilskildu að þeir séu fjár síns ráðandi. Þó skal enginn sitja lengur í stjórn en sex ár samfellt. Fyrrum stjórnarmaður verður kjörgengur að nýju að tveimur árum liðnum. Kjörgengur félagi getur ekki skorast undan kjöri nema að hann hafi áður setið í stjórn í sex ár alls.
Undirbúning stjórnarkjörs annast þriggja manna kjörnefnd skipuð af stjórn félagsins minnst tveimur mánuðum fyrir aðalfund. Kjörnefnd tekur við uppástungum frá félögum um val fólks til setu í stjórn og skal leitast við að eigi séu færri í kjöri en tvöföld tala þeirra aðalmanna í stjórn sem kjósa skal.

17. gr.
Stjórn félagsins skiptir sjálf með sér verkum, öðrum en formennsku. Velja skal varaformann sem leysir kjörinn formann af í forföllum hans, ritara sem heldur gerðarbók um stjórnarathafnir og gjaldkera sem annast reikningshald. Stjórn í heild er ábyrg fyrir gerð ársreiknings og skal hann lagður fyrir kjörna skoðunarmenn skemmst tíu dögum fyrir aðalfund.

Formaður kallar stjórn saman til fundar svo oft sem þurfa þykir og ávallt ef meirihluti stjórnarmanna æskir þess. Stjórnarfundi skal boða með minnst sólarhrings fyrirvara. Kalla skal til varamenn í forföllum aðalmanna.
Stjórnarfundur er lögmætur ef á fundi eru hið fæsta fjórir stjórnarmenn, þ.m.t. varamenn í forföllum stjórnarmanna. Formaður stýrir fundum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

18. gr.
Aðalfundur kýs til eins árs í senn tvo skoðunarmenn ársreiknings og einn til vara. Þurfa þeir að vera fjár síns ráðandi.

V. kafli
Framkvæmd félagsslita

19. gr.
Komi til þess að aðalfundur, eða eftir atvikum framhaldsaðalfundur, ákveði að félaginu verði slitið, sbr. 11., 12. og 13. gr., skal sá hinn sami fundur jafnframt ákveða hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins að frádregnum skuldum. Eingöngu er heimilt að ráðstafa eignunum til stofnana og/eða félaga utan atvinnurekstrar sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla í héruðunum við Breiðafjörð.
Áður en ráðstöfun eigna kemur til framkvæmdar skal stjórn félagsins greiða upp skuldir þess. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um félagsslit eru stjórn óheimilar aðrar fjárhagslegar ráðstafanir en þær sem nauðsynlegar eru vegna félagsslitanna og til að verja eignir félagsins.

VI. kafli
Ákvæði til bráðabirgða

Samþykktir þessar voru samdar í tilefni fyrirhugaðs samruna Barðstrendingafélagsins, kt. 440169-4499, við Breiðfirðingafélagið undir nafni og kennitölu (480169-1669) síðar nefnda félagsins.
Samþykktir þessar ganga ekki í gildi nema samruni, ásamt samþykktunum, verði samþykktur í hvoru félagi fyrir sig, í samræmi við ákvæði í þágildandi samþykktum þeirra. Eðli máls samkvæmt er samþykkt hvors félags háð fyrirvara um samþykki hins félagsins. Innan 15 daga frá því að samruni hefur verið samþykktur í báðum félögunum skal haldinn almennur félagsfundur í sameinuðu félagi til staðfestingar samþykkta þessara og til kjörs stjórnar félagsins og skoðunarmanna ársreiknings í samræmi samþykkir þessar.
Stjórn félagsins skal skipa þriggja manna nefnd til endurskoðunar samþykkta þessara, m.a. að virtum ábendingum sem kunna að koma fram við samþykkt þeirra í félögunum tveimur. Nefndin skal skila tillögum sínum til stjórnar félagsins fyrir lok árs 2024.

Þannig staðfest á almennum félagsfundi 14.3.2024.

 

Additional information