Fréttir frá kórnum haust 2020
Kæru kórfélagar Breiðfirðingakórsins og aðrir velunnarar.
Við í Breiðfirðingakórnum höfum misst ansi mikið úr kórstarfinu vegna Covid-19 þar sem síðasta æfing okkar var líklega 4. mars s.l.
En nú er vonandi að birta til varðandi þetta og stefnum við því að halda fund með kórfélögum þann 16. september kl. 19:30 til að kanna hug félaganna varðandi framhald starfsins a.m.k. fram til áramóta.
Í maí síðastliðnum var Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir ráðin nýr kórstjóri í stað Julians M. Hewlett sem lauk sínum samningi um svipað leyti eftir 7 ára afar ánægjulegt samstarf, sem honum ber að þakka. Öllum kórfélögum á að vera hún kunnug eftir nokkurra ára samstarf með kórnum bæði sem einsöngvari og sem raddþjálfi margra félaga. Vonumst við að sjálfsögðu eftir árangursríku samstarfi með Kristínu.
Eins og áður leitum við eftir nýjum félögum í kórinn sem stefnir á fjölbreytt og skemmtilegt lagaval. Allir eru þar velkomnir, Breiðfirðingar sem og aðrir. Áhugasömum er bent á að kjörið tækifæri er til að mæta á fund kórsins n.k. miðvikudagskvöld í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14, 108 Reykjavík. Þar er frábær æfingaaðstaða fyrir kórinn.
Finnbjörn Gíslason, kórformaður.