Fréttabréf BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS 4. tbl. maí 2013 19. árg. er komið út.

 

Fréttabréf  

BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS

Faxafen 14. 108 Reykjavík S: 581-4511

4. tbl. maí 2013 19. árgangur

Ábyrgðarmaður Snæbjörn Kristjánsson

 Kæru félagsmenn
Nú er sumarið gengið í garð, en þessir síðustu dagar maí mánaðar hafa verið tiltölulega kaldir, og oft gránað niður í miðjar Esjuhlíðar. Vetrarstarfi félagsins lauk með degi aldraðra þann 5. maí sl. og var fjölmenni eins og undanfarin ár. Kórinn söng nokkur lög af dagskrá sinni og Kristófer Ari Óskarsson spilaði á sítru. Félag breiðfirskra kvenna og stjórn félagsins sáu um kaffið, en meðlætið sáu þær um ásamt skemmtinefnd, nokkrum kórfélögum og stjórn félagsins. Spurningakeppni átthagafélaganna lauk 24. apríl með sigri okkar liðs. Sjá nánar á blaðsíðu 4. Spurningakeppnin verður síðan aftur á dagskrá eftir næstu áramót. Aðsókn að vorfagnaðinum var mjög lítil og hefur stjórnin ákveðið að hætta með vor-og vetrarfagnaði, þar sem þátttaka hefur verið óviðunandi. Breiðfirðingakórinn hélt sína árlegu vortónleika laugardaginn 13. apríl sl. í Langholtskirkju. Dagskráin var fjölbreytt með lögum af ýmsu tagi. Síðan fór kórinn í söngferðalag til Suðurnesja og söng fyrir eldriborgara að Nesvöllum í Reykjanesbæ. Sumarferð félagsins verður farin að Logalandi 21. til 23. júní nk. og verður dagskráin með svipuðu sniði og undanfarin ár, sjá nánar á bls. 2. Við vonumst til að sjá sem flesta í sumarferðinni. Vetrardagskráin hefst síðan um miðjan september, sjá nánar á www.bf.is.
Kær kveðja
Snæbjörn Kristjánsson, formaður

Sumarferð
Sumarferð félagsins verður að Logalandi í Borgarfirði 21. til 23. júní nk.

Dagskrá:
Á föstudagskvöldinu hittumst við í salnum og spjöllum saman og segjum brandara. Hafið með ykkur gítar eða harmonikku.
Á laugardag kl. 10:30 verður farið á eigin bílum (menn geta sameinast í bíla) í skoðunarferð um nágrennið. Eftir skoðunarferðina verður bingó. Kveikt verður upp í grillinu kl 18:00 og síðan skemmtum við okkur fram eftir nóttu.

Matur:
Menn nesta sig sjálfir að öðru leyti en því að félagið mun sjá um sameiginlega grillmáltíð á laugardagskvöldinu og er hún innifalin í þátttökugjaldinu.

Þátttökugjald:
Þátttökugjaldið er kr. 4000,- fyrir fullorðna, sem er fyrir leigu á sameiginlegri aðstöðu, tjaldstæði, svefnpokaplássi og matinn á laugardagskvöldinu og fleira.
Frítt er fyrir börn yngri en 14 ára.
Þeir sem ekki gista greiða kr. 2500.-

Ferðir:
Gert er ráð fyrir að fólk verði á eigin bílum.

Skráning:
Skráning í ferðina og pöntun á gistingu, er hægt að gera á heimasíðu félagsins www.bf.is  “Skráning í sumarferð 2013

Einnig er hægt skrá sig í ferðina og panta gistingu hjá Sæunni Thorarensen í síma 864-2201 og Herði Rúnari Einarssyni í síma 892-4511 og er um að gera að panta strax.
Það er mjög áríðandi að allir panti, þó að einungis sé mætt í matinn.

Stjórnin þarf að vita þátttöku fyrir þriðjudaginn 18. júní vegna matarinnkaupa ofl.
Logaland

Breiðfirðingafélagið sigraði í spurningakeppni átthagafélaganna 2013
Lið Breiðfirðingafélagsins vann lið Norðfirðingafélagsins í úrslitakeppni átthagafélaganna 2013.
Hér fyrir neðan má sjá alla sem kepptu fyrir okkar hönd og þökkum við þeim kærlega fyrir frábæra frammistöðu.

Lið Breiðfirðingafélagsins talið frá vinstri, efri röð: Urður María Sigurðardóttir og Elís Svavarsson, neðri röð: Karl Hákon Karlsson, Páll Guðmundsson og Grétar Guðmundur Sæmundsson

Additional information