Stjórn Breiðfirðingafélagsins
VORIÐ KEMUR
Vortónleikar Breiðfirðingakórsins í Langholtskirkju, laugardaginn 13. apríl kl. 16:00
Með sól í hjarta hefur Breiðfirðingakórinn upp raust sína þetta vorið og flytur ykkur létta og fjölbreytta söngdagskrá með lögum eftir ýmsa höfunda m.a. Valgeir Guðjónsson, Sigvalda Kaldalóns og Sigfús Halldórsson að ógleymdum Jóni frá Ljárskógum.
Einsöngvari með kórnum er Marta Guðrún Halldórsdóttir Mezzosópran, stjórnandi er Judith Þorbergsson og undirleikari Þóra Fríða Sæmundsdóttir.
Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur, eru svo sannarlega orð að sönnu. Það er ekki bara gróðurinn og dýralífið sem lifnar við með hækkandi sól heldur einnig mannslundin sem finnur hjá sér gleði og fögnuð yfir því sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er yndislegt að hlusta á fuglasönginn úti í náttúrunni en það er ekki síðra að hlusta á fallegan kórsöng og því hvetjum við alla til að mæta á tónleikana og fagna vorkomunni með okkur.
Kaffi, gos og meðlæti verður í boði kórsins í hléi. Verð aðgöngumiða er kr. 2.000 við innganginn en kr. 1.500 í forsölu hjá kórfélögum, frítt er fyrir 12 ára og yngri.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Breiðfirðingakórinn.