Stjórn Breiðfirðingafélagsins

Fréttabréf BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS 2. tbl. febrúar. 2014 20. árg. er komið út.

  

Fréttabréf    

BREIÐFIRÐINGAFÉLAGSINS 

Faxafen 14. 108 Reykjavík S: 581-4511 

2. tbl. febr. 2014 20. árgangur 

Ábyrgðarmaður Snæbjörn Kristjánsson

 

Kæru félagsmenn

Þá er janúarmánuður liðinn og sólin farin að hækka á lofti. Senn líður að aðalfundi félagsins, en hann verður haldinn í Breiðfirðingabúð, fimmtudaginn 20. febrúar, kl 20:30. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta. Kjörnefnd skipa þau: Benedikt Egilsson, s: 824-8402, Bjarnheiður Magnúsdóttir, s: 862-0546 og Guðmundur Theodórs s: 894-0328. Eins og ævinlega mun Félag Breiðfirskra kvenna sjá um kaffi og meðlæti. Starfsemi félagsins er nú í fullum gangi og gengur vel. Spurningakeppni átthagafélaganna í Reykjavík, hófst í Breiðfirðingabúð, þann 6. febrúar og stendur til 4. apríl, sjá nánar á næstu síðu. Félagsvist er spiluð á sunnudögum og bridge á sunnudagskvöldum. Þátttaka í spilum hefur verið góð í vetur. Prjónakaffið heldur sínu striki en gaman væri að sjá fleiri mæta. Árshátíð á þorra var haldin í Breiðfirðingabúð laugardaginn 25. janúar. Veislustjóri var Þorgrímur Guðbjartsson. Einnig var sýndur dans. Hljómsveitin Traustir vinir lék fyrir dansi. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka öllum, sem stóðu að árshátíðinni, fyrir frábæra skemmtun. Margt er enn á dagskrá félagsins, þar má nefna t.d. dansleik og skemmtun hjá Breiðfirðingakórnum, Páskabingó og svo að sjálfsögðu dag aldraðra, sjá nánar á næstu síðu.

Kær kveðja
Snæbjörn Kristjánsson, formaður

 


Spurningakeppni átthagafélaganna2014:

Spurningakeppni átthagafélaganna hófst 6. febrúar og verður næst 13. febr. 27. febr. 6. mars, 13. mars, 8 liða úrslit 27. mars og úrslit 4. apríl. Það eru lið frá 16 átthagafélögum og þar sem okkar lið vann í fyrra fer það beint í átta liða úrslitin þann 27. mars. Við hvetjum ykkur til að mæta og hvetja ykkar fólk sérstaklega en allir eru velkomnir öll kvöldin.
Keppnin hefst kl 20:00 öll kvöldin, húsið opnar kl 19:30.
Aðgangseyrir verður 750 krónur.Sjá nánar á heimasíðu félagsins This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Prjónakaffi í Breiðfirðingabúð

Prjónakaffið verður annan hvern mánudag, kl. 20:00 og byrjað verður 10. febr., 24. febr. 10. mars., 24. mars og 7. apríl. Upplýsingar gefa Erla í síma 898-6747 og Sæunn í síma 864-2201.

Takið með ykkur handavinnuna og/eða sjáið hvað verið er að gera. Kaffi og gos verður til sölu.

 

Bridge:

Við Breiðfirðingar og fleiri ætlum að spila á sunnudögum í vetur eins og áður. Fyrsta spilakvöldið er 5. janúar kl. 19.00 í Breiðfirðingabúð. Ekki þarf að skrá sig heldur einungis að mæta þegar ykkur langar til. Við ætlum að vera mjög umburðalynd og því er tækifæri fyrir þá sem óvanir eru að spila bridge að koma og æfa sig.
Æfingagjaldið er kr. 800.- pr. kvöld og er kaffi innifalið í verðinu.

16. Febrúar Tvímenningur

23. Febrúar Hraðsveitakeppni 1 af 3

2. Mars Hraðsveitakeppni 2 af 3 

9. Mars Hraðsveitakeppni 3 af 3

16. Mars Tvímenningur

23. Mars Tvímenningur keppni 1 af 3

30. Mars Tvímenningur keppni 2 af 3

6. Apríl Tvímenningur keppni 3 af 3

13. Apríl Páskamót/Barómeter

27. Apríl Tvímenningur keppni 1 af 3

4. Maí Tvímenningur keppni 2 af 3

11. Maí Aðalfundur/tvímenningur


Félagsvist verður spiluð eftirtalda sunnudaga:

16. febr 1. dagur í fjögurra daga keppni

23. febr 2. dagur í fjögurra daga keppni

2. mars 3. dagur í fjögurra daga keppni

9. mars 4. dagur í fjögurra daga keppni

16. mars Félagsvist stakur dagur

23. mars 1. dagur í fjögurra daga keppni

30. mars 2. dagur í fjögurra daga keppni

6. apríl 3. dagur í fjögurra daga keppni

13. apríl 4. dagur í fjögurra daga keppni

Spilin hefjast alla dagana stundvíslega kl. 14:00
Fyrstu verðlaun kvenna og karla verða kr. 4.000,- og önnur verðlaun kr. 2.500,- auk þess fær sá sem oftast situr við sama borð svolitlar sárabætur.
Í fjögurra daga keppni eru spilaðir fjórir dagar, en þrír bestu gilda við útreikning stiga. Veitt eru heildarverðlaun að verðmæti kr. 10.000,- fyrir fyrsta sætið og kr. 5.000 fyrir annað sætið.
Sá sem verður hæstur eftir veturinn í heild mun fá sérstakan glaðning, eins konar heiðursverðlaun í vor.
Góðar kaffiveitingar eru eftir spilin. Miðaverð er kr. 1000,-.

Helstu atriði dagskrár eftir áramót:

1. mars. Dansleikur og skemmtun Breiðfirðingakórsins

5. apríl. Páskabingó, kl 14:30

4. maí. Dagur aldraðra, kl 14:30

3. júní. Gróðursetningarferð í Heiðmörk.

27. til 29. júní. Sumarferð félagsins.

 

Tillögur um lagabreytingar

Stjórn Breiðfirðingafélagsins leggur til við aðalfund félagsins haldinn 20. febrúar 2014 eftirfarandi breytingar á lögum félagsins:

13. gr.

Undirbúning allan til stjórnarkjörs annast þriggja manna kjörnefnd. Skal hún skipuð af stjórn félagsins fyrir áramót ár hvert. Tekur hún á móti uppástungu frá félögum um val manna í félagsstjórn. Er henni skylt að taka þær til greina, enda séu þær skriflegar, studdar af minnst 5 mönnum, og skilað til nefndarinnar fyrir 20. jan. ár hvert. Nefndinni ber að sjá um, að eigi séu færri í kjöri en tvöföld tala þeirra, sem kjósa á í aðalstjórn.

Þessi grein hljóði svo eftir breytingu:

13. gr.

Undirbúning allan til stjórnarkjörs annast þriggja manna kjörnefnd. Skal hún skipuð af stjórn félagsins fyrir áramót ár hvert. Tekur hún á móti uppástungu frá félögum um val manna í félagsstjórn. Nefndinni ber að sjá um, að eigi séu færri í kjöri en tvöföld tala þeirra, sem kjósa á í aðalstjórn.

Aðalfundarboð

Aðalfundur Breiðfirðingafélagsins verður haldinn í

Breiðfirðingabúð fimmtudaginn 20. febrúar 2014

og hefst stundvíslega kl. 20:30

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Lagabreytingar

3. Önnur mál

Kaffiveitingar

 

Breiðfirðingakórinn
Nú er bjart um norðurslóð, nú er létt um spor. Lóan syngur ástaróð, enn er komið vor.
Svona hefst eitt laganna sem Breiðfirðingakórinn æfir þessa dagana og gefur tóninn um hvað framundan er þ.e. íslenska vorið. Skemmtilegur tími þar sem líf til sjávar og sveita lifnar við og gleðin skín frá hverju hjarta. Þannig er það líka hjá okkur í kórnum á hverju miðvikudagskvöldi, bros á hverju andliti og tilhlökkun að takast á við verkefni kvöldsins. Við erum með metnaðarfulla dagskrá og syngjum lög allt frá Verdi til heimaskáldsins okkar, Jóns frá Ljárskógum en hann hefði einmitt orðið 100 ára í ár. Ég segi einnig með stolti að lag við eitt ljóðanna hans Jóns samdi einn af kórfélögum okkar þ.e. hún Hulda J. Óskarsdóttir , fallegt lag við fallegt ljóð sem fær hugann til að reika vestur í dali. Það má því öllum ljóst vera að vortónleikarnir lofa góðu og vona ég að sem flestir sjái sér fært að mæta, gleðjast yfir vorkomunni með okkur og styrkja kórstarfið því fátt er skemmtilegra en að syngja fyrir fullu húsi. Vortónleikarnir verða í Langholtskirkju 8. maí og nú er bara að taka daginn frá. 10. maí heldur kórinn í sína árlegu vorferð og er gaman að segja frá því að nú er förinni heitið vestur í dali. Við verðum með tónleika í Dalabúð auk þess að syngja á Staðarfelli en ekki er ólíklegt að kórinn muni bresta í söng á hinum ólíklegustu stöðum.
Það er fleira framundan en hin hefðbundna dagskrá en hápunkturinn eru líklega tónleikar með heldri félögum Karlakórs Reykjavíkur 27. apríl í Seltjarnarneskirkju.
Þá mun norskur kór heimsækja okkur í Breiðfirðingabúð 30. maí og munum við syngja saman og í sitthvoru lagi nokkur lög. Af þessu má sjá að kórstarfið er blómlegt og engin ástæða að láta sér leiðast. Það eru allir velkomnir á þessar uppákomur svo nú er bara að taka dagana frá.
1. mars verður síðan okkar árlega kórball en þetta hafa alltaf verið hin skemmtilegustu kvöld. Alt og bassi sjá um skemmtiatriði, að venju verður happdrætti, góðir vinningar í boði og síðan dönsum við inn í nóttina. Allir velkomnir svo nú er bara að efla félagstengslin og taka kvöldið frá.
Ég vonast til að sjá ykkur sem flest á öllum þeim uppákomum sem í boði eru, hvort sem það er hjá kórnum eða félaginu, eflum þannig tengslin við heimahagana og hvort annað því fátt gleður hjartað meir en skemmtilegur félagsskapur.
Kærar kveðjur til ykkar allra
Halldóra K. Guðjónsdóttir.

 

Additional information